Árshlutareikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 30.06.2016

Árshlutareikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 30.06.2016

//
Categories

Rekstrarniðurstaða Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrri hluta ársins var jákvæð um 483 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarafgangur yrði 134 milljónir króna. Helstu frávik eru að tekjur vegna staðgreiðslu eru umfram áætlun um 147 m.kr. og fjármagnskostnaður er um 282 milljónum króna lægri en áætlun gerði ráð fyrir vegna lægri verðbóta.

Tekjur námu 11.129 milljónum króna sem er 153 milljónir umfram áætlun. Laun og launatengd gjöld eru stærstu útgjaldaliðir sveitarfélagsins og námu þeir 5.236 milljónum króna sem er 92 milljónum krónum hærra en áætlun gerði ráð fyrir. Annar kostnaður var 3.667 milljónir sem er 46 milljónum króna undir áætlun. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir var jákvæð sem nam 1.738 milljónum króna. Afskriftir voru 446 milljónir króna og fjármagnsliðir 809 milljónir króna. Veltufé frá rekstri nam um 1.651 milljón króna sem er um 15% á móti heildartekjum.

Rekstur málaflokka gekk vel og var í takt við áætlanir. Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál en til hans var varið um 5.004 milljónum króna, til félagsþjónustu um 1.434 milljónum króna og til æskulýðs- og íþróttamála um 917 milljónum króna.

Rekstur fyrri hluta árs 2016 gekk vel og hagræðingaraðgerðir sem farið var í á árinu 2015 hafa gengið eftir. Mikill viðsnúningur hefur orðið í rekstri sveitarfélagsins milli ára. Halli fyrstu 6 mánaða 2015 var um 389 milljónir króna, samanborið við 483 milljóna króna rekstrarafgang í ár. Veltufé frá rekstri var um 293 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2015 en er 1.651 milljón króna fyrir sama tímabil 2016.

Heildareignir námu í júnílok samtals 49.023 milljónum króna og höfðu þær hækkað um 543 milljónir á tímabilinu. Heildarskuldir og -skuldbindingar námu samtals 40.243 milljónum króna. Áætlanir gera ráð fyrir að greiða niður skuldir á árinu og að skuldaviðmið verði komið niður fyrir 150% um mitt ár 2017.

Íbúar Hafnarfjarðar voru 28.425 um mitt ár samanborið við 28.139 árið áður sem er fjölgun um 286 eða 1%.

Árshlutareikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2016 var lagður fram í bæjarráði Hafnarfjarðar í dag 25. ágúst 2016 og er aðgengilegur á vef Hafnarfjarðar www.hafnarfjordur.is