Eimskip: Góður árangur heldur áfram á þriðja ársfjórðungi

Eimskip: Góður árangur heldur áfram á þriðja ársfjórðungi

//
Categories

  • Rekstrartekjur námu 134,1 milljón evra, hækkuðu um 4,3 milljónir evra eða 3,4%
  • Tekjur hækkuðu um 6,3 milljónir evra eða 4,9% þegar tillit er tekið til 2,0 milljóna evra söluhagnaður sem innifalinn var í tekjum Q3 2015 vegna skips í smíðum sem hætt var við kaup á
  • EBITDA nam 17,8 milljónum evra, hækkaði um 1,4 milljónir evra eða 8,6%
  • Aðlöguð EBITDA hækkaði um 3,4 milljónir evra eða 23,3% þegar tillit er tekið til 2,0 milljóna evra söluhagnaðarins
  • Hagnaður nam 9,4 milljónum evra samanborið við 8,5 milljónir evra og hækkaði um 10,7%
  • Eiginfjárhlutfall var 63,3% og nettóskuldir námu 34,8 milljónum evra í lok september
  • Afkomuspá ársins 2016 hefur verið breytt í EBITDA á bilinu 52 til 55 milljónir evra

 

GYLFI SIGFÚSSON FORSTJÓRI

„Rekstrartekjur á þriðja ársfjórðungi námu 134,1 milljón evra og hækkuðu um 3,4%. Rekstrarhagnaður fjórðungsins fyrir afskriftir, EBITDA, nam 17,8 milljónum evra og jókst um 23,3% samanborið við aðlagaða EBITDA sama tímabils í fyrra sem nam 14,4 milljónum evra eftir að tekið var tillit til 2,0 milljóna evra söluhagnaðar af skipi sem hætt var við kaup á og tekjufærður var á þriðja ársfjórðungi 2015. Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 6,8% samanborið við þriðja ársfjórðung síðasta árs og tekjur hækkuðu um 5,7 milljónir evra eða 6,1%. Góður vöxtur var í flutningum tengdum Íslandi, Færeyjum og Noregi. Magn í flutningsmiðlun jókst um 4,7% á fjórðungnum á meðan flutningsmiðlunartekjur drógust saman um 1,4 milljónir evra eða 3,8% vegna áhrifa af lækkandi verðum í alþjóðlegri flutningsmiðlun og samdrætti í flutningsmagni frá Kína sem er smám saman að ná sér á strik aftur. Hagnaður fjórðungsins nam 9,4 milljónum evra og hækkaði um 10,7%. Félagið heldur áfram að sýna góðan árangur og þetta er besti þriðji ársfjórðungur í rekstri félagsins frá árinu 2009 hvað varðar rekstrartekjur, EBITDA, EBIT og hagnað.

Rekstrartekjur félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins námu 373,4 milljónum evra og hækkuðu þær um 1,2% á milli ára. Tekjur af áætlunarsiglingum hækkuðu um 15,2 milljónir evra eða 5,8% og tekjur af flutningsmiðlun lækkuðu um 10,8 milljónir evra eða 10,2% vegna framangreindra ástæðna. EBITDA tímabilsins nam 43,6 milljónum evra og hækkaði um 8,1 milljón evra eða 22,9% frá sama tímabili í fyrra, en samanborið við aðlagaða EBITDA er hækkunin 30,1%. Nettó fjármagnskostnaður nam 1,0 milljón evra samanborið við óverulegar nettó fjármunatekjur á fyrstu níu mánuðum fyrra árs, en hagnaður jókst samt sem áður um 28,8% og nam 20,0 milljónum evra. Flutt magn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 8,0% samanborið við fyrstu níu mánuði fyrra árs og magn í flutningsmiðlun um 3,0%.

Eftir 90 ára samstarf við höfnina í Hamborg í Þýskalandi tilkynntum við í október að skip félagsins á bláu leiðinni munu hætta viðkomum í Hamborg og hefja viðkomur hjá EUROGATE Container Terminal Bremerhaven frá og með 6. desember. Breytingin skapar ýmis tækifæri og veitir viðskiptavinum okkar á Íslandi, í Færeyjum og Noregi betri tengingar inn á nýja markaði og siglingatíminn styttist. Gámahöfnin í Bremerhaven er sú fjórða stærsta í Evrópu og er mikilvæg umskipunarhöfn. Auk þess er vagga sjávarútvegs í Þýskalandi á svæðinu í kringum Bremerhaven.

Eimskip styrkti í október stöðu sína í alþjóðlegri flutningsmiðlun með kaupum á 90% hlut í flutningsmiðlunar-fyrirtækinu Extraco í Rotterdam. Ársvelta fyrirtækisins nemur um 19 milljónum evra eða um 2,5 milljörðum króna. Extraco, sem stofnað var árið 1991, mun flytja starfsemi sína í starfsstöð Eimskips í Rotterdam til að ná fram samlegðaráhrifum og til að vera hluti af frystiflutningskjarna með öðrum einingum Eimskips þar.

Í byrjun nóvember tilkynnti Eimskip undirritun samnings um kaup á norska flutningafyrirtækinu Nor Lines. Áætluð ársvelta Nor Lines nemur um 110 milljónum evra, eða um 13,6 milljörðum króna, og er fjöldi starfsmanna um 200 talsins. Fyrirtækið rekur nú víðtækt þjónustunet í Noregi og annast flutninga á sjó og landi. Með fyrirvara um samþykki norskra samkeppnisyfirvalda er gert ráð fyrir að endanleg niðurstaða um kaupin liggi fyrir á fyrsta ársfjórðungi 2017.

Eimskip og grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line undirrituðu í maí viljayfirlýsingu um að móta og meta möguleika á samstarfi um smíði á þremur gámaskipum og um að deila afkastagetu þeirra. Með mögulegu samstarfi mun Grænland tengjast alþjóðlegum siglingakerfum. Vinnan hefur gengið vel á undanförnum vikum og mánuðum og markmiðið er að samkomulag um samstarfið liggi fyrir í desember.

Markmið okkar er áfram að vaxa bæði með innri vexti og með kaupum á  fyrirtækjum sem falla að starfsemi félagsins og auka virði þess. Við munum halda áfram á sömu braut í að vinna að fjárfestingum í fyrirtækjum og skipum og erum nú að vinna með nokkra valkosti. Við munum ekki auka hlutafé til að ljúka mögulegum fjárfestingum en munum hins vegar auka lántökur vegna fjárfestinga og koma þar með fjármagnsskipan fyrirtækisins í eðlilegra horf, þó þannig að efnahagsreikningur félagsins verði áfram sterkur.

Reksturinn á fjórða ársfjórðungi fer vel af stað, októbermánuður er í samræmi við væntingar okkar og flutningsmagn í kerfum félagsins fyrstu tvær vikur nóvembermánaðar er það einnig. Óvissa ríkir varðandi kjarasamninga við hluta íslenskra áhafna á skipum Eimskips. Byggt á framansögðu hefur verið ákveðið að breyta afkomuspá félagsins frá því að vera á bilinu 49 til 53 milljónir evra í að vera EBITDA á bilinu 52 til 55 milljónir evra.“

 

FREKARI UPPLÝSINGAR

  • Gylfi Sigfússon forstjóri, sími: 525 7202
  • Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs, sími: 525 7202
  • Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang: [email protected]