Samandreginn árshlutareikningur Ríkisútvarpsins ohf. 2016

Samandreginn árshlutareikningur Ríkisútvarpsins ohf. 2016

//
Categories

Helstu rekstrarniðurstöður eftir fyrstu sex mánuði ársins eru að 38 m.kr. halli var á rekstri félagsins á tímabilinu en fjárhagsáætlanir gera, sem fyrr, ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu RÚV á árinu 2016 eins og á árinu 2015. Niðurstaðan skýrist í meginatriðum af árstíðabundinni sveiflu og þeirri staðreynd að hagræðingaraðgerðir sem ráðist var í í kjölfar lækkunar útvarpsgjaldsins um síðustu áramót og undirritun nýs þjónustusamings í apríl sl. munu skila sér í kostnaðarlækkunum á seinni hluta ársins.

Helstu niðurstöður

Tekjur RÚV aukast um 5,9% samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2015 en lækkun útvarpsgjalds um síðustu áramót veldur því að opinberar tekjur félagsins ná ekki að halda í við kostnaðarhækkanir sem RÚV verður fyrir vegna kjarasamninga eins og önnur fyrirtæki á þessu ári og því síðasta.

Fjárhagsleg endurskipulagning og breytingaferli síðustu tveggja ára hefur skilað umtalsverðri hagræðingu í rekstri félagsins og jafnvægi hefur náðst í rekstri þess. Jafnframt hefur tekist að auka þjónustu á ýmsum sviðum, s.s. þjónustu við börn, landsbyggðina og vinnslu eldra efnis úr Gullkistu RÚV. Vefur Ríkisútvarpsins, RÚV.is, hefur einnig verið í stöðugri þróun. Það markmið að hagræða í ytri umgjörð og rekstri en verja dagskrá eins og kostur er hefur því gengið eftir. Með lækkun útvarpsgjaldsins hefur RÚV því þurft að reiða sig í meira mæli en áður á aðrar tekjur, s.s. sölu auglýsinga, sölu efnis og leigutekjur til að uppfylla almannaþjónustuhlutverk sitt sem skilgreint er í lögum og þjónustusamningi. Stöðugildi voru að meðaltali 256 á tímabilinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 297 árið 2013 og 324 árið 2008.

Framtíðarhorfur og efnahagur

Útvarpsgjald var lækkað árið 2015 og aftur árið 2016. Á sama tíma voru möguleikar félagsins á öflun auglýsingatekna takmarkaðir með lagasetningu. Nýsamþykktir kjarasamningar á almennum markaði vega þungt og leiða til hækkunar rekstrarkostnaðar félagsins.

Með undirritun nýs þjónustusamnings við mennta- og menningarmálaráðherra í apríl síðastliðnum sem gildir til loka árs 2019 er fjárhagsrammi félagsins tryggður. Forsenda samningsins er að innheimt útvarpsgjald lækki ekki að raunvirði frá árinu 2016, að tekjustofnar RÚV séu áfram samsettir af opinberum tekjum og auglýsingatekjum, og á þann hátt sé fjármögnun þeirrar þjónustu sem skilgreind er í samningnum tryggð.

Sala byggingarréttar á lóð félagsins mun skila töluverðum tekjum sem lækka skuldir félagsins. Af varfærnissjónarmiðum hefur söluhagnaður enn ekki verið bókfærður. Þrátt fyrir sölu byggingarréttar verður félagið áfram yfirskuldsett og hefur stjórn Ríkisútvarpins vakið athygli eigandans, ríkisins, á því að félagið hafi á komandi árum ekki burði til þess að standa undir hinni miklu skuldsetningu án aðgerða. Sjálfstæð úttekt PwC frá árinu 2014 staðfesti að félagið hefði um hríð verið yfirskuldsett og vegur þar þyngst gamalt lán vegna uppgjörs á lífeyrisskuldbindingum.

 

Nánari upplýsingar veitir Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, s: 515 3000