Afkoma Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2016

Afkoma Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2016

//
Categories

Hagnaður Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 nam 17,3 milljörðum króna samanborið við 25,4 milljarða króna á sama tímabili 2015. Arðsemi eigin fjár var 11,2% samanborið við 19,8% fyrir sama tímabil árið 2015. Reiknaður hagnaður af reglulegri starfsemi nam 5,7 milljörðum króna samanborið við 11,5 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins 2015. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 3,7% samanborið við 9,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2015.

Heildareignir námu 1.038,5 milljörðum króna í lok september samanborið við 1.011,0 milljarða króna í árslok 2015 og eigið fé hluthafa bankans nam 206,9 milljörðum króna í lok september, samanborið við 192,8 milljarða króna í árslok 2015. Efnahagur bankans er sterkur og lögð hefur verið áhersla á trygga lausafjárstöðu í aðdraganda afnáms fjármagnshafta.

Eiginfjárhlutfall bankans í lok september var 26,1% en var 24,2% í árslok 2015. Hlutfall eiginfjárþáttar A hækkaði og nam 25,5% samanborið við 23,4% í árslok 2015.

Helstu rekstrar- og kennitölur bankans eru eftirfarandi:

Í milljónum króna 9 mán. ’16 9 mán. ’15 3F 2016 3F 2015
Hreinar vaxtatekjur 22.058  20.287  7.432  7.112 
Hreinar þóknanatekjur 10.213  10.726  3.466  3.292 
Hreinar fjármunatekjur 4.339  10.176  844  453 
Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga 710  6.956  16  2.739 
Aðrar rekstrartekjur 2.642  2.232  781  709 
Rekstrartekjur 39.962  50.377  12.539  14.305 
Laun og launatengd gjöld  (12.252)  (10.320)  (3.826)  (3.153)
Annar rekstrarkostnaður  (10.393)  (9.016)  (3.425)  (3.012)
Bankaskattur  (2.190)  (2.168)  (705)  (779)
Hrein virðisbreyting 6.827   (114) 5.882   (33)
Hagnaður fyrir skatta 21.954  28.759  10.467  7.328 
Tekjuskattur  (5.261)  (3.639)  (3.170)  (1.272)
Afkoma af aflagðri starfsemi eftir skatta 569  277  206  15 
Hagnaður tímabilsins 17.262  25.397  7.503  6.071 
         
Helstu kennitölur
Arðsemi eigin fjár 11,2% 19,8% 14,4% 14,2%
Vaxtamunur á vaxtaberandi eignir 3,1% 3,0% 3,1% 3,1%
Kostnaðarhlutfall 56,7% 38,4% 57,8% 43,1%
Tier 1 hlutfall 25,5% 22,2% 25,5% 22,2%

 

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Afkoman á fyrstu níu mánuðum ársins er viðunandi. Grunnrekstur bankans hefur verið aðeins undir væntingum enda hafa ytri aðstæður sumpart verið óhagstæðar. Þróun á hlutabréfamarkaði á tímabilinu hefur neikvæð áhrif, en bankinn er enn með stöður í skráðum félögum. Grunnrekstur bankans er engu að síður traustur og eiginfjárstaða bankans heldur áfram að styrkjast. Alþjóðlega lánshæfismats fyrirtækið Standard & Poor´s horfði til sterkrar eiginfjárstöðu bankans, bætts aðgengis að erlendum lánsfjármörkuðum sem og sterkrar stöðu íslensks efnahagslífs þegar fyrirtækið hækkaði nýlega lánshæfismat Arion banka í BBB/A-2 með jákvæðum horfum. Vaxtaálag á erlendum útgáfum bankans á eftirmarkaði hefur lækkað mikið sem ber vott um þá eftirspurn sem er til staðar á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum eftir skuldabréfum bankans.

Í lok september gengu kaup Arion banka á tryggingafélaginu Verði í gegn og bætast þar með skaðatryggingar í vöruframboð bankans, en líftryggingar hafa verið hluti af vöruframboðinu um árabil. Vörður hefur þar með bæst í hóp dótturfélaga Arion banka og mun starfa náið með bankanum þegar kemur að sölu trygginga. Viðskiptavinir beggja munu njóta góðs af.“

 

Fundur með markaðsaðilum

Arion banki mun halda símafund á ensku fyrir markaðsaðila, fimmtudaginn 17. nóvember, klukkan 13:00. Á fundinum mun Stefán Pétursson, fjármálastjóri Arion banka, fara yfir helstu atriði í uppgjöri bankans. Áhugasamir geta sent tölvupóst á [email protected] og fá í kjölfarið sendar nánari upplýsingar varðandi þátttöku á símafundinum.

 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka, [email protected], s: 856 7108.