Fjarskipti hf. : Hagræðingaraðgerðir teknar að skila árangri

Fjarskipti hf. : Hagræðingaraðgerðir teknar að skila árangri

//
Categories

Árshlutareikningur Fjarskipta hf. fyrir annan ársfjórðung 2016 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 22. ágúst 2016.

  • Tekjuaukning 2% m.v. annan ársfjórðung 2015
  • Framlegð 1.605 m.kr. og stendur nánast í stað miðað við sama tímabil 2015
  • EBITDA hagnaður nam 751 m. kr., lækkun um 3% milli ára
  • EBITDA á Íslandi er hærri en á sama fjórðungi í fyrra en lægri í Færeyjum
  • EBITDA hlutfall 21,7% og EBIT hlutfall 11,7% á fjórðungnum
  • Hagnaður tímabilsins nam 248 m.kr., sem er 17% lækkun frá öðrum ársfjórðungi 2015
  • Eiginfjárhlutfall nam 45,3%


Stefán Sigurðsson, forstjóri:

“Rekstur Fjarskipta var í takt við væntingar á öðrum ársfjórðungi. Fyrri hluta ársins einkenndist hann af aukningu launakostnaðar í tengslum við kjarasamninga á sama tíma og verðsamkeppni á farsímamarkaði hafði áhrif á tekjur bæði á Íslandi og í Færeyjum. Ef uppgjör annars fjórðungs er borið saman við þann fyrsta má glöggt sjá að hagræðingaraðgerðir sem hófust á fyrsta ársfjórðungi eru farnar að skila árangri, eru á áætlun og munu halda áfram að skila sér á seinni hluta ársins, sérstaklega þegar tekið er tillit til einskiptiskostnaðar við forstjóra í Færeyjum á nýliðnum fjórðungi. Markmið áætlana er að seinni hluta árs hafi félagið varið reksturinn fyrir þeim kjarasamningshækkunum umfram verðbólgu sem komu fram af þunga í uppgjöri fyrsta fjórðungs.

Sé einungis horft til Íslands er EBITDA á öðrum ársfjórðungi hærri en á sama tíma fyrir ári en áfram lægri í Færeyjum. Unnið er að styrkingu starfseminnar í Færeyjum en á ársfjórðungnum var Rúnar Reistrup, Færeyingur með mikla alþjóðlega fjarskipta og viðskiptaþróunarreynslu, ráðinn nýr framkvæmdastjóri Vodafone Færeyja. Við bindum miklar vonir við að hann muni snúa vörn í sókn í starfsemi Vodafone í Færeyjum í samvinnu við okkur árið 2017.

Ýmsir jákvæðir hlutir eru í uppbyggingu hjá félaginu sem fyrr, ekki síst í samstarfi við Vodafone Group. Sem dæmi var nýverið greint frá því að við getum nú boðið íslenskum fyrirtækjum alþjóðlega fjarskiptaþjónustu í samvinnu við Vodafone Group. Vodafone á Íslandi varð þar fyrsta sjálfstæða fyrirtækið undir merkjum fjarskiptarisans til að bjóða þessa lausn á alþjóðavísu. Vodafone ONE hefur einnig hlotið mjög góðan hljómgrunn meðal viðskiptavina á einstaklingsmarkaði, þar sem félagið bætti við sig viðskiptavinum þrátt fyrir harða samkeppni á fyrri hluta ársins. Við erum stolt af því að vera stöðugt að bæta þjónustu til viðskiptavina, bæði með tilliti til verðs og gæða tenginga, jafnt hérlendis og erlendis. Þessi bætta þjónusta og gæði fyrirtækisins hafa leitt til aukinnar notkunar á gagnamagni bæði í farsíma og interneti. Til dæmis bentum við nýverið á þá skemmtilegu staðreynd að um 600% meðalaukning var á notkun gagnamagns meðal viðskiptavina okkar sem heimsóttu Frakkland í júní á milli ára.”

HUG#2036583